Innlent

Launahækkanir frá áramótum gufa upp

Ólafur Darri Andrason hagfræðingur Alþýðusambands Íslands.
Ólafur Darri Andrason hagfræðingur Alþýðusambands Íslands.

Laun hafa hækkað um rúm þrjú prósent að meðaltali frá áramótum en kaupmátturinn hefur staðið í stað. Launahækkanir hafa étist upp af verðbólgunni sem hefur haldið í við launavísitöluna frá áramótum.

Ef horft er tvö ár aftur í tímann er hið sama upp á teningnum. Þrátt fyrir 12 prósenta launahækkanir að meðaltali er kaupmáttaraukningin á sama tíma aðeins fjögur prósent.

Verðbólga síðustu tveggja ára er rúm átta prósent. Á síðustu tólf mánuðum hafa laun hækkað um sjö prósent að meðaltali en kaupmáttaraukningin er einungis tvö prósent. Verðbólga á tímabilinu var tæp fimm prósent.

Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur Alþýðusambands Íslands, segir það áhyggjuefni að verðbólgan sé að éta upp kaupmáttinn. "Við höfum litlar vísbendingar um launaskrið á almennum vinnumarkaði þannig að okkur sýnist að þorri launþega hafi verið að fá þrjú prósent launahækkun á síðustu tólf mánuðum en á sama tíma hefur verðlag hækkað um 4,6 prósent," segir hann. "Kaupmáttur þeirra, sem ekki hafa fengið aðrar launahækkanir en hinar almennu samningsbundnu hækkanir í janúar síðastliðnum, er að rýrna og það er verulegt áhyggjuefni," segir Ólafur Darri.

Hann bendir á að ekki sé lengur deilt um að að forsendur kjarasamninga séu brostnar því verðbólga hafi verið langt umfram það sem gert hafi verið ráð fyrir í samningum. Hann segir að vitað hafi verið þegar gengið var til samninga að hagkerfið væri á leið inn í þensluskeið. "Samningar til fjögurra ára áttu að vera grunnur að því að hægt væri að stýra hagkerfinu svo upp mætti byggja kaupmátt og leggja grunn að framtíðaruppbyggingu starfa," segir Ólafur Darri.

"Við erum hins vegar að upplifa það núna að ákveðin utanaðkomandi áföll, eins og olíuverðshækkun, og hagstjórnarmistök, á borð við breytingar á íbúðalánamarkaði og illa tímasettar skattalækkanir, hafa leitt til þess að verðbólga hefur verið miklum mun meiri en við áttum von á," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×