Innlent

Annasöm nótt hjá lögreglu

Ráðist var á pitsusendil í Miðbænum í nótt og bíll hans skemmdur. Þá eru tveir menn í haldi lögreglu vegna innbrota eftir nóttina.

Pitsusendillinn var við störf í miðbænum þegar árásin átti sér stað. Tveir menn réðust á pitsasendilinn og börðu hann og unnu síðan töluverðar skemmdir á bíl sendilsins. Ekki er enn ljóst hvers vegna mennirnir réðust á sendilinn og lögregla hefur ekki haft uppi á þeim ennþá. Málið er í rannsókn.

Tveir menn eru í haldi vegna innbrota eftir nóttina í Reykjavík. Tæplega fimmtugur maður var handtekinn um klukkan eitt í nótt, eftir að hafa brotist inn í atvinnuhúsnæði í höfðahverfi. Hann var á bíl og að sögn lögreglu leikur grunur á að hann hafi verið ölvaður undir stýri. Eldsnemma í morgun braust svo yngri maður inn í hús í miðborginni, en komst ekki inn í íbúðir hússins. Hann var ofurölvi og hefur ekki getað gefið skýringar á athæfi sínu, en verður yfirheyrður síðar í dag þegar hann verður kominn í ástand til.

Þá handtók lögreglan líka tvo sextán ára gamla drengi undir morgun, þar sem þeir höfðu tekið bíl ófrjálsri hendi og höfðu auk þess ekki aldur til að aka honum. Þeir voru ölvaðir undir stýri.

Á milli klukkan sjö og tíu í morgun voru svo fjórir aðrir ökumenn teknir fyrir að aka ölvaðir í miðborginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×