Innlent

Íslandsdagar í Japan

Fjölmargir íslenskir listamenn koma fram á sérstökum þjóðardegi Íslands sem efnt verður til í borginni Chiryu í Japan 15. júlí næstkomandi. Hápunktur dagskránnar er eflaust flutningur á tónverkinu Bergmál eftir Ragnhildi Gísladóttur en Sjón ljáði verkinu ljóð. Skólakór Kársness, Kammerkór Skálholts ljá verkinu rödd auk tónskáldins sjálfs. Slagverksleikur verður hins vegar á höndum Sigtryggs Baldurssonar og japanska kollega hans Stomu Yamash´ta. Þórunn Björnsdóttir stjórnandi Skólakórs Kársness segir að fjörutíu og sex krakkar á aldrinum 12-17 ára fari utan með Skólakór Kársness og séu þeir svo spenntir að þeir geti vart sofið. Tólf krakkar fara hins vegar með Kammerkórnum. Hljómsveitirnar sem leika við þetta tækifæri eru Bang Gang, tónlistarhópurinn Caput og Jazz-kvartett Sigurðar Flosasonar ásamt Kristjönu Stefánsdóttur söngkonu. Heiðursgestur á Íslandsdeginum verður Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra verður einnig með í för.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×