Innlent

Ekki gripið til öryggisráðstafana

Ekki hefur verið gripið til sérstakra öryggisráðstafana hérlendis í dag vegna atburðanna í London. Dómsmálaráðherra segir að öryggiskerfi landsins hafi verið styrkt á undanförnum misserum. Við breska sendiráðið við Laufásveg mátti sjá merki þess að einhverjir vildu sýna samhug sinn í verki en tveir blómsveigar lágu á tröppum sendiráðsins um miðjan dag. Ekki var að sjá að öryggisgæsla þar hefði verið hert í dag. Á Keflavíkurflugvelli var öryggisviðbúnaður með venjubundum hætti en dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, segir að ekki hafi verið talin ástæða til grípa sérstakra varúðarráðstafana í dag. Eftirlitskerfi á flugvöllum eigi að virka jafnvel núna og endranær og hættumatið hér á landi sé ekki það sama og í Bretlandi. Ráðherrann minnir á að öryggiskerfi landsins hafi verið styrkt á undanförnum misserum. Sérsveit lögreglunnar hafi t.a.m. verið efld. Eftir 11. september voru hliðin inn á svæði varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli styrkt sérstaklega og öryggisviðbúnaðurinn þar verið gríðarlegur síðan. Jóhann R. Benediktsson, sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli, segir að engar róttækar ákvarðanir hafi verið teknar í öryggismálum vegna atburðanna í London. Hins vegar sé Keflavíkurflögvöllur í nánum samskiptum við flugvelli á Norðurlöndum varðandi samræmingu öryggisþátta vegna ódæðisverksins í morgun.   Dómsmálaráðherra segir að Íslendingar verði eins og aðrar þjóðar að líta til þessara þátta. Það sé mikill barnaskapur ef við höldum að við séum algjörlega óhult fyrir hryðjuverkamönnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×