Innlent

Völdu ráðstefnu vegna mikilvægis

Þremenningarnir sem stóðu að mótmælunum á Nordica-hóteli og slettu grænleitu skyri yfir gesti og búnað á álráðstefnu hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir svara ýmsum spurningum varðandi mótmælin. Þar segja þeir meðal annars að álráðstefnan hafi orðið fyrir valinu vegna þess að þetta hafi verið ráðstefna leiðandi manna í áliðnaði og tengdri framleiðslu hvaðanæva að úr heiminum. Þeir hafi verið hér vegna þess að þeir telji að Ísland sé rétti staðurinn til að þróa þungaiðnað. Þeir sem verið hafi á ráðstefnunni séu lykilpersónur í ákvarðanatöku, fjármögnun og stefnumótun á bak við Kárahnjúkavirkjun og aðrar þungaiðnaðarframkvæmdir víðar á Íslandi sem þau séu andvíg. Þá segjast þremenningarnir hafa valið grænt skyr þar sem „grænþvottur“ sé hugtak sem oft sé notað til að lýsa yfirborðslegum tilraunum fyrirtækja til að kynna sig sjálf sem umhverfisvæn eða sjálfbær. Skyrið hafi orðið fyrir valinu vegna þess að það sé lífrænt efni og hægt að þvo af og því er ljóst að því var ekki ætlað að valda meiðslum eða óafturkræfum skemmdum. Hópurinn segir að markmið aðgerðanna hafi verið að trufla ráðstefnuna, einkum og sér í lagi málstofu um sjálfbærni, og að senda skýr skilaboð beint til leiðtoga þungaiðnaðarins um að Ísland sé ekki eins notalegt hreiður fyrir þá og þeir virðast halda. Þá hafi þau viljað veita öðrum innblástur til að grípa til aðgerða gegn því samsæri fyrirtækja og stjórnvalda að svíkja af Íslendingum mikið afþeirri stórbrotnu arfleifð sem náttúra landsins er. Þremenningarnir segjast ekki hafa fengið greitt fyrir athæfið heldur séu þau knúin áfram af ást og reiði; ást á nátturunni og reiði í garð þeirra sem reyna að eyðileggja hana vegna persónulegs stundarhagnaðar, hagnaðar hluthafa og valdafíknar. Þau segjast bera jafna ábyrgð á aðgerðunum en ætlunin hafi ekki verið að skemma eignir. Hins vegar felist skelfileg kaldhæðni í því að margir ráðstefnugesta taki í starfi sínu ákvarðanir sem valda gríðarlegum og óafturkræfum skemmdum á þeirri jörð sem við eigum öll og samt eru þeir ekki kallaðir til ábyrgðar, hvorki siðferðislega, lagalega né fjárhagslega og þaðan af síður með einstaklingsbundnum hætti. Fréttastofa Bylgjunnar og Stöðvar 2 hefur reynt var að ná tali af Paul Gill, einum mótmælendanna, í dag eftir að ljóst varð að hann væri laus úr varðhaldi en hann segist ekki ætla að ræða við fjölmiðla og skellti á fréttamann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×