Erlent

Engin von um að Schiavo næði sér

Engin von var til þess að Terri Schiavo næði sér. Krufning leiddi þetta í ljós en ekki tókst að finna ástæðu þess að hún féll í dá fyrir fimmtán árum síðan. Heilinn í Schiavo var svo alvarlega skaddaður að hún hefði aldrei náð sér hefði hún lifað. Þetta er meginniðurstaða krufningar á henni en hún lést fyrir nokkrum vikum eftir að hafa hvorki fengið vott né þurrt í nærri tvær vikur. Greint var frá niðurstöðum rannsókna hóps vísindamanna í gær og komust þeir meðal annars að því að heilinn í Schiavo var helmingi minni en í venjulegu fullorðnu fólki. Læknar telja því algjörlega útilokað að hún hefði mögulega getað náð bata. Þá kom einnig í ljós að Schiavo var blind síðustu ár ævi sinnar. Eiginmaður Schiavo, Michael, telur þetta sýna að hann hafi frá upphafi haft rétt fyrir sér, en foreldrar Terri eru því ósammála. Talsmaður þeirra bendir á að vísindamennirnir hafi ekki getað komist að ástæðu þess að hún féll í dá fyrir fimmtán árum en Michael hefur haldið því fram að orsökin sé átröskunarsjúkdómur sem leiddi til ofþornunar. Læknar telja það þó ekki sannfærandi skýringu. Engin ummerki fundust heldur um að hún hefði fengið hjartaáfall og ljóst er að henni var ekki gefið morfín síðustu dagana sem hún þornaði upp á sjúkrabeðinu í vor. Fjölskylda Terri hefur lengi grunað Michael Schiavo um að bera með einum eða öðrum hætti ábyrgð á því að Terri féll í dá. Niðurstöður krufningarinnar vörpuðu engu ljósi á það og ekki tókst að svara ýmsum lykilspurningum í málinu og því hætt við að áfram verði deilt um það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×