Erlent

Hafi vitað af vilja til samninga

Ný gögn benda til þess að Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hafi vitað af vilja fyrirtækis sem sonur hans vann hjá til að fá arðbæran samning við Sameinuðu þjóðirnar vegna áætlunar um olíu fyrir mat í Írak. Ekki er langt um liðið frá því að sérstök rannsóknarnefnd hreinsaði Annan af áburði þess efnis að hann hefði hlutast til um að svissneska fyrirtækið Cotecna fengi mjög arðvænlegan samning um umsjón með ákveðnum hluta starfs Sameinuðu þjóðanna í Írak. Annan kvaðst á sínum tíma ekkert hafa vitað af málinu þó að sonur hans hefði starfað hjá fyrirtækinu. Nú eru hins vegar komin fram ný gögn um að Annan hafi átt fund með fulltrúum Cotecna aðeins tíu dögum áður en fyrirtækið fékk samninginn. Michael Wilson, náinn vinur Annans og starfsmaður Cotecna, gerði minnisblað um fund með Annan og samferðarmönnum hans í París árið 1998. Þar, segir Wilson, var áhugi fyrirtækisins á samningnum ræddur. Talsmaður Annans segir hann ekki minnast þessa fundar, skipuleggjandi ferðarinnar segir hann ekki hafa verið á dagskrá og ekkert í opinberum skjölum bendir til þess að hann hafi átt sér stað. Talsmaðurinn sagði hins vegar mögulegt að Annan hafi hitt Wilson og Kojo, son sinn, á einkafundi í París en það hefði hvergi verið skráð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×