Innlent

Sóknarprestur lagður í einelti

Séra Hans Markús Hafsteinsson sóknarprestur í Garðaprestakalli segir að hann hafi þurft að þola ögrandi sms skilaboð og hótanir í kjölfar samstarfsörðugleika í Garðasókn. Við athugun kom í ljós að skilaboðin komu frá síma í eigu eiginmanns Nönnu Guðrúnar Zoëga djákna sem séra Hans Markús hefur átt í útistöðum við. Einnig hefur honum borist umslag sem í voru afklipptir fingur af hanska. Nanna Guðrún hefur beðist velvirðingar fyrir hönd eiginmanns síns vegna smáskilaboðanna en hún segist engan þátt eiga í þeim sjálf. Hvað viðvíkur afklipptu fingrunum segist hún ekki kannast við það mál nema að því leyti að hún hafi heyrt séra Hans Markús tala um sendinguna. Sóknarpresturinn kærði eineltið til úrskurðunarnefndar þjóðkirkjunnar sem síðan taldi sannanir ónægar í málinu. Um samstarfsörðugleikana segir séra Hans Markús: "Hún kvartaði til dæmis undan því við sóknarnefnd að ég bauð henni með mér á fund en hún kveðst hafa séð það á mér að ég hafi ekki meint það. Þetta lýsir því best um hverskonar sparðatínslu er að ræða."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×