Innlent

Úthlutun dregin til baka

Einn umsækjenda um lóð í Lambaseli hefur fengið afsvar. Ekki kemur til greina að hann fái lóð þar sem hann fékk úthlutað lóð árið 2001 þó að hann hafi ekki nýtt sér þá úthlutun. Eitt af skilyrðunum fyrir lóðum í Lambaseli er að umsækjendur hafi ekki fengið úthlutað lóð í Reykjavík frá árinu 2000. Starfsmenn umhverfis- og tæknisviðs eru þessa dagana að fara yfir umsóknirnar og kanna hvort nokkuð séu brögð í tafli hjá umsækjendum, t.d. hvort fjölskyldur hafi skilað inn fleiri en einni umsókn. "Stóra stundin er svo miðvikudaginn 4. maí en þá mæta umsækjendur til að velja sér lóð," segir Ágúst Jónsson, skrifstofustjóri hjá umhverfis- og tæknisviði. "Sá sem er með valnúmer eitt velur fyrstur og svo velja þeir koll af kolli." Eftir að dregið var úr umsóknunum var gagnrýnt að dregið skyldi úr kökuboxi. Þótti furðu sæta að tvö samstæð númer skyldu til dæmis koma upp. Ágúst segir að ekki hafi sér vitanlega borist nein kæra vegna þessa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×