Innlent

Sóknarprestur beri hluta af sök

Sóknarpresturinn í Garðasókn á sjálfur að hluta til sök á deilum sem upp eru komnar í sókninni, að mati sálfræðings. Presturinn segist hafa verið ginntur til samstarfs við sálfræðinginn og hafa orðið fyrir einelti af hálfu djákna. Það var sóknarpresturinn sjálfur sem vísaði málinu til úrskurðarnefndar Þjóðkirkjunnar þar sem hann krafðist þess að formaður og varaformaður sóknarnefndar, prestur í Garðasókn, auk djáknans yrðu færð til í starfi. Úrskurðarnefndin lagði hins vegar til við biskup Íslands að sóknarpresturinn yrði færður til í starfi. Sakaði sóknarpresturinn djáknann um að hafa staðið fyrir einelti gegn sér með SMS-skilaboðum úr síma eiginmanns djáknans. Sóknarpresturinn hélt því einnig fram að formaður og varaformaður sóknarnefndarinnar hefðu ginnt sig til samstarfs við sálfræðing og taldi hann það ámælisvert þar sem ljóst hefði verið allan tímann að sálfræðingurinn myndi brjóta trúnað gagnvart sér. Í úrskurðinum segir að sóknarprestinum hefði mátt vera ljóst að niðurstaða sálfræðirannsóknarinnar kynni að verða á þá leið að hann sjálfur ætti einhvern hlut að máli og því sé ekki hægt að halda því fram að hann hefði verið ginntur til samstarfs við sálfræðinginn. Niðurstaða sálfræðingsins var ekki kynnt sóknarprestinum áður en hún var kynnt sóknarnefndinni og biskupi og telur úrskurðarnefndin það vera ámælisvert. Leitaði sóknarpresturinn meðal annars til landlæknis sem taldi að sálfræðingurinn hefði rofið þagnarskyldu sína sem heilbrigðisstarfsmaður en þessu mótmælti sálfræðingurinn og sagði að umsögn landlæknis væri á misskilningi byggð. Formaður sóknarnefndar Garðasóknar hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir meðal annars að um alvarlegan samskiptavanda sé að ræða sem megi rekja mörg ár aftur í tímann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×