Innlent

Grímseyingar óttast hafís

Grímseyingar eru áhyggjufullur vegna hafíss sem í gær var 20 mílur norðvestur af eyjunni. Spáð er norðlægum áttum og hætta á að ísinn leggist að Grímsey og loki höfninni. Hafís var í gær einnig skammt úti af Vestfjörðum og vill Veðurstofan benda sjófarendum á að hann geti farið inn á siglingaleiðina fyrir Horn. Þór Jakobsson veðurfræðingur segir að spáð sé hvassri norðanátt og þá reki ísinn hratt að Norðurlandi og því hugsanlegt að hafís leggist að landi í Grímsey strax í dag. Sjómenn sem stunda netaveiðar frá Grímsey hafa tekið upp net sín og segir Óttar Þór Jóhannsson, oddviti Grímseyjarhrepps, að komi hafísinn að landi verði vír strengdur fyrir mynni hafnarinnar til að verja báta og hafnarmannvirki. "Hér snýst allt atvinnulíf um fiskveiðar og vinnslu og ef hafís leggst að eyjunni mun atvinnulífið lamast. Því eru Grímseyingar áhyggjufullir og fylgjast grannt með ísnum," segir Óttar. Í Grímsey búa tæplega 100 manns og fá eyjarskeggjar allt rafmagn frá dísilstöð. Óttar segir að í eyjunni séu nú olíubirgðir til þriggja mánaða og því ekki bráð hætta á að þeir missi ljós og hita.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×