Innlent

Músum loks sýndur sómi

Systurnar hagamús og húsamús prýða ný frímerki Íslandspósts sem komu út í gær. Er þessu fagnað í herbúðum Músavinafélagsins en menn þar á bæ telja að loksins sé músinni sýnd sú virðing sem hún á skilið. "Það var sannarlega tími til kominn að fyrsta landnema Íslands væri sýndur sá sómi að setja hann á frímerki," segir Magnús Skarphéðinsson, forseti Músavinafélagsins. "Eins og alþjóð veit þá var hagamúsin líklega fyrsti landnámsgesturinn á Íslandi með refnum og ég tel mjög viðeigandi að þess sé minnst núna," segir hann. Mun fleiri hagamýs en húsamýs búa á Íslandi og flestar þeirra músa sem finnast í híbýlum manna eru hagamýs. Svipur er með hagamúsum og húsamúsum og stærð þeirra og lögun ámóta. Hagamúsin er þó brún með ljósan kvið en húsamúsin gráleit. Jón Baldur Hlíðberg teiknaði mýsnar en Anna Þóra Árnadóttir hannaði frímerkin að öðru leyti.
Hagamús.
Húsamús.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×