Erlent

Mynda varnarbandalag

Íranar og Sýrlendingar hétu gagnkvæmum stuðningi gegn hugsanlegum ógnum. Bæði sæta ríkin þrýstingi af hálfu Bandaríkjanna; Íranar vegna kjarnorkuáætlunar sinnar og Sýrlendingar í kjölfar morðsins á Rafik Hariri, fyrrum forsætisráðherra Líbanons. "Í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem Sýrlendingar standa frammi fyrir munu Íranar nýta reynslu sína, einkum af refsiaðgerðum, til hjálpar Sýrlendingum," sagði Mohammad Reza Aref, varaforseti Írans, eftir fund sinn með Mohammad Naji Otari, forsætisráðherra Sýrlands. "Við þessar viðkvæmu aðstæður er það ríkjunum nauðsynlegt að standa saman gegn margvíslegum hættum," sagði sýrlenski ráðherrann. Bandaríkjamenn hafa gagnrýnt Sýrlendinga harðlega í kjölfar morðsins á Rafik Hariri. Sýrlendingar hafa fordæmt morðið og ekki hefur verið sýnt fram á hver réði hann af dögum en margir telja að sýrlensk stjórnvöld standi á bak við morðið. Bandaríski sendiherrann var kallaður heim frá Sýrlandi í fyrradag og var síðasta verk hans að afhenda þarlendum stjórnvöldum harðort bréf þar sem þau voru gagnrýnd vegna morðsins á Rafik Hariri, sem hafði gagnrýnt mjög veru sýrlenskra hersveita í Líbanon. "Beri Sýrlendingar ábyrgð á morðinu, sem væri pólitískt sjálfsmorð, myndi það vafalaust leiða til aukins þrýstings, refsiaðgerða og jafnvel þess að hervaldi yrði beitt gegn þeim," sagði Patrick Seale, breskur sérfræðingur í málefnum Sýrlands. Bæði ríkin hafa sætt gagnrýni bandarískra stjórnvalda fyrir að styðja við bakið á hryðjuverkamönnum. Helsta áhyggjuefni Bandaríkjamanna varðandi Írana snýr að kjarnorkuáætlun hinna síðarnefndu. Þó að Íranar segist aðeins ætla að nota kjarnorku í friðsamlegum tilgangi óttast margir, þar á meðal Bandaríkjamenn, Ísraelar og Evrópuþjóðir, að þeir hyggist koma sér upp kjarnorkuvopnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×