Lífið

Konum kennt að versla í matinn

"Þetta námskeið er frábært fyrir þá sem vilja koma sér af stað," segir Ragnheiður Birgisdóttir framkvæmdarstjóri Nordica Spa sem stendur fyrir námskeiðinu Súperform á fjórum vikum. Námskeiðið, sem skiptist í karla og kvennahópa, er fyrir alla þá sem vilja fá gott aðhald og góðan grunn að réttu matarræði og æfingum og leggur Ragnheiður áherslu á að þarfir hvers og eins séu settar í fyrirrúm. Þjálfarinn, Goran Micic sem er íþróttafræðingur með yfir 20 ára reynslu í líkamsrækt, ætlar meðal annars að fara með konurnar út í búð og kenna þeim að versla rétt í matinn. Auk þess fær hver og ein matseðil fyrir sig þar sem miðað er við líkamsþyngd, þarfir og áherslur hjá hverri og einni. "Námskeiðið skiptist í fjórar vikur. Í fyrstu vikunni er jafnvægi komið á líkamann þar sem konum er kennt að borða rétt svo líkaminn sé fullur af orku allan daginn. Önnur vikan fer í meltinguna, sú þriðja í jafnvægi á hormónaflæði líkamans þar sem ónæmiskerfið er byggt upp og í fjórðu vikunni er hreinsun þar sem við lærum að losa okkur við úrgang og eiturefni úr líkamanum," segir Ragnheiður og bætir við að fólk sé að ná góðum árangri á svona námskeiði. "Fólk er að ná af sér kílóum án þess að fara of hratt í sakirnar. Á þessum tíma er hægt að komast í ákveðið form en svo er gert ráð fyrir að fólk haldi áfram að stunda lífstílinn. Hóparnir eru litlir og stemningin er skemmtileg. Í lok hvers tíma fá allir prótein drykk svo enginn fer héðan svangur út og í óhollustuna. Eftir tímann er einnig farið í heita pottinn þar sem nuddari nuddar axlirnar svo fólk er að koma héðan endurnært og í góðu jafnvægi." Lestu meira í tímaritinu Magasín sem fylgir DV í dag.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.