Sport

Enn sigrar Broddi

Broddi Kristjánsson er margfaldur Íslandsmeistari í badminton og bætti enn einum titlinum í safnið í gær þegar hann varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik karla, ásamt Helga Jóhannessyni sem hafði mínútum áður tryggt sér titilinn í einliðaleik. Broddi er enn í fantaformi, þrátt fyrir að vera kominn af léttasta skeiði og við spurðum hann hvernig leikurinn hefði spilast og hvort hann ætti enn nóg inni. "Við vorum mjög einbeittir og ákveðnir, en samt afslappaðir. Höggin voru að takast mjög vel og vörnin var góð hjá okkur. Við náðum að lyfta þeim aftarlega og svara svo með flötum og stuttum höggum, þannig að við náðum að teygja dálítið vel á þeim og þá fór þetta að detta fyrir okkur. Ég reyni svona að hanga með í þessu á meðan ég get það og það veitir ekki af að hafa dálitla breidd í þessu hérna því það munar mikið um það þegar menn eru að hætta. Ég held áfram á meðan líkaminn leyfir og maður reynir að gefa eitthvað áfram til þeirra sem yngri eru og miðla til þeirra reynslu. Það eru krakkar að koma upp í A-flokknum sem lofa góðu," sagði Broddi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×