Innlent

Kostar hundruð milljóna

Verðstríðið á matvörumarkaði hefur fram að þessu kostað nokkur hundruð milljóna króna í heildina, varlega áætlað. Forsvarsmenn Krónunnar og Bónuss segja að verðstríðið sé enn í fullum gangi og verðið mjög lágt þó að bullið sé úr sögunni. Sigurður Arnar Sigurðsson, forstjóri Kaupáss, segir að um 500-1.000 verðbreytingar eigi sér stað hjá Krónunni á dag. Krónan hafi ætlað sér að vera valkostur á lágvöruverðsmarkaði og það hafi tekist. Hann vill ekkert segja um það hvað verðstríðið svokallaða hafi kostað Krónuna. "Það er verið að selja ákveðnar vörur undir kostnaðarverði og það er dýrt," segir hann. Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, segir að erfitt sé að henda reiður á því hvað verðstríðið hafi kostað fyrirtækin en í rauninni sé verið að framleiða tap. Það sé engin skynsemi í því að selja vörur langt undir heildsöluverði. Báðir telja sig hafa nóg úthald en Guðmundur segir einhvern tímann koma að þeim tímapunkti að reksturinn þurfi að sýna hagnað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×