Innlent

Vatnsveður og umferð um helgina

Ljóst er að tjón sem varð í vatnsveðrinu á Austfjörðum í gær nemur mörgum milljónum króna. Þó nokkuð af vegfarendum um Vesturland sluppu án meiriháttar meiðsla í slysum, sem rakin eru til óveðursins.  Vegagerðarmönnum tókst seint í gærkvöldi að opna þjóðveginn um Fagradal á milli Reyðarfjarðar og Egilsstaða, sem rofnaði í vatnsveðrinu í gær, auk þess sem nokkrar aurskiriður féllu á veginn. Vegurinn er mikið skemmdur þannig að aka verður hann með gát, mun fullnaðar viðgerð taka langan tíma. Þá er verið að hreinsa tvær götur á Fáskrúðsfirði, en þær lokuðust í gær vegna framburðar og víða hefur skolað úr vegköntum.-Viðgerðarmenn símans eru byrjaðir að gera við  ljósleiðarann, sem rofnaði á milli Reyðarfjarðar og Fáskúrðsfjarðar í gær vegna skriðufalla. Útsendingar ríkissjónvarpsins hafa legið niðri á sunnanverðum Austfjörðum vegna þessa auk þess sem bilunin hefur áhrif á gagnaflutninga á svæðinu og á GSM samband á einhverjum svæðum. Vonast er til að viðgerð ljúki i dag. Gríðarleg umferð var til höfuðborgarsvæðisins í gær í bálhvössu veðri víða á Vesturlandi.   Mótorhjól fauk út af veginum í Kollafirði í gær, en ökumaður slapp ómeiddur. Húsbíll fauk útaf veginum í Staðarsveit og gjöreyðilagðist, en engin sem þar var um borð, slasaðist alvarlega. Það slasaðist heldur enginn alvarlega þegar jeppi fauk út af veginum á móts við Hvammsvík undir kvöld í gær og valt, og þeir sem voru í fólksbíl sem valt í Hvítársíðu í Borgarfirði í gærkvöldi sluppu lítið meiddir. Verulegt eignatjón varð í flestum þessara tilvika. Draga fór úr veðurofsanum í gærkvöldi og í nótt og í morgun var ekki lengur varað við ferðalögum vegna veðurs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×