Innlent

Bíll lenti úti í Norðurá

Maður á sextugsaldri lést eftir að bíll hans fór útaf veginum í Norðurárdal í Borgarfirði í gærdag skammt ofan við bæinn Sveinatungu og endaði úti í Norðurá.

Að sögn sjónarvotta missti maðurinn stjórn á bíl sínum en töluverð hálka var á þessum slóðum. Var maðurinn úrskurðaður látinn á slysstað. Lögreglunni í Borgarnesi barst tilkynning um slysið rétt fyrir klukkan hálf þrjú.

Aðstæður á slysstað voru mjög erfiðar en bíllinn var á kafi í ánni og gekk á með éljum. Í fyrstu var óttast að fleiri hefðu verið í bílnum en síðar kom í ljós að maðurinn var einn á ferð.

Alls komu um 25 manns að björgunaraðgerðum, lögregla, slökkvilið, sjúkraflutningamenn og björgunarsveitarmenn en björgunarstarfi lauk um sjö leytið í gærkvöldi. Ekki er unnt að greina frá nafni hins látna að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×