Erlent

Reynt að afstýra trúarbragðastríði

Öfgahópar súnnímúslima í Írak hafa ráðið að minnsta kosti 27 sjítamúslima af dögum í dag. Árásir súnníta á sjíta fara vaxandi dag frá degi en yfirvöld reyna hvað þau geta til að afstýra trúarbragðastríði í landinu. Þetta er það sem margir fréttaskýrendur óttuðust að myndi gerast; að þjóðarbrot og trúarbragðahópar Íraks myndu rísa upp hverjir gegn öðrum. Enn sem komið er er ekki hægt að tala um trúarbragðastríð eða átök á milli þjóðarbrota en atburðir dagsins í dag gætu þó verið vísbending um það sem koma skal. Öfgamenn úr röðum súnníta gerðu þrjár árásir á sjítamúslima í dag, tvær í moskum þeirra og eina á kaffihúsi í hverfi sjíta í Bagdad. Árásirnar í dag virðast tengjast Ashura, trúarhátíð sjíta, sem nær hápunkti á morgun. Þetta er ein af mikilvægari hátíðum sjíta til minningar um píslarvættisdauða barnabarns Múhameðs spámanns. Á þessari hátíð í fyrra létu tæplega 200 sjítar lífið í árásum öfgamanna. Gróft má segja að Írakar skiptist í þrjá meginhópa: sjíta sem eru fjölmennastir en hafa ætíð þurft að lúta stjórn súnníta sem höfðu töglin og hagldirnar í Írak undir stjórn Saddams Husseins. Þriðji hópurinn er svo Kúrdar í norðurhluta landsins. Sjítar unnu sigur í nýafstöðnum þingkosningum eins og búist var við og fengu meirihluta atkvæða. Súnnítar sátu að mestu heima og fengu því nær ekkert fylgi í kosningunum. Forsvarsmenn sjíta hafa samt sem áður lagt áherslu á að fulltrúar frá öllum þessum þremur meginhópum eigi fulltrúa í ríkisstjórninni sem nú er verið að mynda. Fréttaskýrendur telja að það sé eina færa leiðin til að reyna að koma í veg fyrir átök þessara hópa í framtíðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×