Innlent

Lyfjaver kom best út úr könnun ASÍ

Allt að sjötíu prósenta verðmunur reyndist á lausasölulyfjum í apótekum á höfuðborgarsvæðinu í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í 12 apótekum fyrir tæpri viku. Langhagstæðast er að versla í Lyfjaveri við Suðurlandsbraut, samkvæmt könnuninni, en þar voru 20 lyf af þeim 22 lyfjum, sem könnuð voru, á lægsta verðinu. Mestur var munurinn á Paratabs-verkjatöflum sem kostuðu minnst 195 krónur en mest 334 krónur. Það er verðmunur upp á 71 prósent eða 139 krónur. 105 skammta Nicorett-tyggigúmmipakkning kostar minnst 1.810 krónur en mest 2.445 krónur og munar þar 643 krónum. Það vekur líka athugli að þrjú apótek, þar sem þetta lyf var dýrast, voru með það upp á krónu á sama verði. Sama var uppi á teningnum hjá sömu apótekum í þremur öðrum lyfjaflokkum sem óneitanlega er merkileg tilviljun í ljósi þess hversu apótekin gefa sér breitt svið til verðlagningar á hverri vöru. Garðsapótek við Sogaveg var langoftast með hæsta verðið, eða tíu sinnum, og skoðast þá dýrasta apótekið í þessari könnun verðlagseftirlits ASÍ.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×