Erlent

30 manns falla daglega

Írösku kosningarnar eru afstaðnar en ekkert lát er á bardögum og voðaverkum. Það sýna atburðir síðustu daga. Á aðeins einni viku hafa rúmlega 200 manns látið lífið, flestir í árásum vígamanna en aðrir í bardögum vígamanna við bandaríska hermenn og íraska þjóðvarðliða. 36 manns hið minnsta létust í gær. Flestir fórust í bílsprengjuárás við sjúkrahús í Musayyab, bæ sextíu kílómetra suður af Bagdad þar sem meirihluti íbúanna eru sjíamúslimar. Hann er hins vegar á svæði þar sem búa hvort tveggja sjíar og súnníar og mikið er um árásir vígamanna úr röðum súnní-múslima. Sautján manns létust í árásinni í gær. Bardagar milli vígamanna og bandaríska hermanna í Mosul reyndust mannskæðir. Níu vígamenn létust sem og tvær konur þegar sprengjur frá bardögunum lentu á heimilum þeirra. Þá fundust lík sex íraskra þjóðvarðliða og sex kúrdískra öryggisvarða í borginni. Þeim hafði verið rænt, þeir bundnir og skotnir. Borgin er fjarri því griðastaður fyrir íraska lögreglumenn og þjóðvarðliða. Fyrr í vikunni létust tólf lögreglumenn í sjálfsmorðsárás og í desembermánuði einum fundust lík 150 lögreglumanna og þjóðvarðliða í borginni. Mannfallið í Írak hefur verið mikið í vikunni og aðeins einu sinni farið undir tuttugu manns. Það var á miðvikudag þegar minnst níu manns létu lífið. Mest var mannfallið á fimmtudag þegar 50 manns létu lífið í bardögum og árásum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×