Erlent

Hundruð sópuðust á haf út

Hundruð manna sópuðust á haf út þegar stífla brast í suðurhluta Pakistans í gær. Skip frá strandgæslunni leita nú að fólki í sjónum.  Látlaus rigning hefur verið í suðurhluta Pakistans í heila viku og gríðarlegt vatnsmagn safnast fyrir í uppistöðulónum þar. Hundrað og fimmtíu metra löng stífla í Balucistan-héraði þoldi ekki álagið og brast seint í gærdag. Risavaxin flóðbylgja æddi þá niður hlíðarnar og sópaði með sér öllu sem fyrir varð. Heilu þorpin hurfu af yfirborði jarðar og sjónarvottar segjast hafa séð trukka og tankbíla kastast með eins og þeir væru Matchbox-bílar. Flóðbylgjan hreif einnig með sér hundruð manna sem sópuðust alla leið út á Arabíuflóa. 5000 hermenn voru sendir með þyrlur og flutningavélar til flóðasvæðanna og hafa þeir fundið yfir eitt hundrað lík á leið flóðbylgjunnar. Skip frá strandgæslunni leita nú að fólki í sjónum en ekki er búist við að þar finnist margir á lífi. Björgunarstarfið er erfitt því flóðið reif ekki aðeins með sér hús heldur einnig símalínur, raflínur, vegi og brýr. Ómögulegt er að segja til um fjölda þeirra sem fórust á þessari stundu. Embættistmenn segja að þeir hafi hingað til fengið tilkynningar um yfir 400 manns sem saknað er en þeim eigi líklega eftir að fjölga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×