Erlent

Bush blandast í umræðurnar

Íraskir sjíar og Kúrdar munu að öllum líkindum leggja drög að stjórnarskrá landsins í dóm þjóðarinnar án þess að þingið fjalli sérstaklega um málið. George W. Bush Bandaríkjaforseti hringdi í gær í Abdul Aziz al-Hakim, einn leiðtoga heittrúaðra sjía, og bað hann um að slá af helstu kröfum sínum. Íraska þingið fékk ekki að fjalla um drög að stjórnarskrá landsins í gærkvöldi eins og búist hafði verið við þar sem enn ríkir sundrung á meðal sjía og Kúrda annars vegar og súnnía hins vegar um inntak plaggsins. Allt bendir því til að fyrrnefndi hópurinn vísi uppkastinu til þjóðaratkvæðagreiðslu 15. október en án blessunar súnnía gæti slík ráðstöfun kynt enn frekar undir ófriðarbálinu sem þegar logar í landinu. Í gær hringdi George W. Bush Bandaríkjaforseti í Abdul Aziz al-Hakim, leiðtoga Íslamska byltingarráðsins í Írak og einn af oddvitum heittrúaðra sjía, og hvatti hann til að miðla málum svo sættir næðust. Talsmaður al-Hakim sagði að sjíar væru til viðræðu um að endurskoða sínar ítrustu kröfur um að Írak yrði sambandsríki og um hreinsun valdakerfisins af fyrrverandi félögum úr Baath-flokknum. Engin viðbrögð hafa fengist frá súnníum um tilboð sjíanna en ólíklegt þykir að þeir láti freistast af því. Sem fyrr stendur aðalágreiningurinn um valddreifingu í landinu. Í núverandi drögum er gert ráð fyrir að átján héruð landsins hafi umtalsverða sjálfstjórn og engin takmörk eru sett fyrir því hversu mörg þeirra mega hópa sig saman og mynda stærri einingar. Slíkt hugnast súnníum afar illa því þeir óttast að verða landluktir í miðju Írak án nokkurra olíulinda. Sjíar og Kúrdar hugsa hins vegar með hryllingi til þeirra tíma þegar öflug einræðisstjórn stjórnaði öllu frá Bagdad og vilja því ríkt sjálfræði. Afskipti Bush af íröskum innanríkismálum eru svo allrar athygli verð og sýna hversu mikið stjórnvöld í Washington leggja upp úr að skriður komist á stjórnmálauppbyggingu í landinu. Hann á enda í vök að verjast heima fyrir þar sem stuðningurinn við hersetuna fer stöðugt þverrandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×