Lífið

Heimildamynd um ömmurán

Tilraunir frændsystkinanna Ásu Torfadóttur og Tómasar Hermannssonar til að ná sambandi við aldraða ömmu sína eru raktar í nýrri heimildarmynd Þorsteins J. Vilhjálmssonar. Myndin heitir Ása amma og er sýnd í nokkrum hlutum í sjónvarpstímaritinu thorsteinnj.is. Ása amma er á heimili dóttur sinnar en dóttirin meinar Ásu yngri og Tómasi, eins og öðrum ættmennum, að hitta gömlu konuna. "Þetta er heimildarmynd um þetta mál út frá sjónarhóli Ásu yngri og Tómasar. Þetta er vitaskuld ofurviðkvæmt enda innan fjölskyldu en það er vel þess virði að fjalla um málið í almennu samhengi, til dæmis hvernig gamalt fólk fær að lifa sína síðustu ævidaga," segir Þorsteinn J. Vinnsla myndarinnar hófst síðsumars 2004 en þá höfðu Ása, Tómas og fleiri reynt að hitta Ásu ömmu um nokkurt skeið. En hvernig endar þessi saga? "Sem betur leysist málið," segir Þorsteinn. "En það breytir því ekki að það vakna spurningar um hver það er sem gætir hagsmuna gamals fólks. Ef grunur leikur á að illa sé farið með dýr eru sérstakir aðilar látnir vita en í svona málum virðist ekkert hægt að gera. Og það er það raunalega við þetta."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.