Innlent

Rignir líklega um helgina

Þó að margir fagni regnleysinu þá eru þurrkar farnir að valda vandræðum í landbúnaði um allt land. Ólafur Dýrmundsson, ráðgjafi hjá Bændasamtökunum, segir að ef ekki fari fljótlega að rigna þá gæti það valdið skaða í úthaga og ekki síður á túnum. Beitt hafi verið á tún nú í vor því úthagar voru ekki tilbúnir og því valdi keðjuverkun því að heyskap muni mjög líklega seinka ef fram heldur sem horfir. Ólafur segir lítið um að menn vökvi hjá sér túnin, slíkt sé alltaf erfitt og ómarkvisst. Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir nú sennilega ekki stefna í neitt þurrkamet. Hann segir að útlit sé fyrir einhverja rigningu austanlands í dag, sennilega verði þurrt á morgun en svo fari líklega að rigna eitthvað um land allt fyrir og um helgina og þá geti bændur tekið gleði sína á ný. Árneshreppur á Ströndum er sennilega sá hreppur landsins sem hefur orðið verst fyrir þurrkunum. Þar hefur nær ekkert rignt af viti síðustu vikur. Bjarnheiður Fossdal, bóndi á Melum, segir þó að nú horfi til betri vegar enda spáð norðanátt fram yfir helgi. Túnin séu farin að gulna en menn voni það besta og séu farnir að bera skít á tún.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×