Innlent

Ósáttir farþegar skrifa og hringja

Flestar fyrirspurnir og kvartanir um verri þjónustu Strætó bs. eftir að nýtt leiðakerfi tók gildi berast úr Árbæ og Breiðholti, að sögn Þórhildar Jónsdóttur í þjónustuveri. Farþegar strætisvagna í Árbæ segjast vera í allt að klukkutíma í og úr vinnu eftir að nýja kerfið var tekið í notkun. Í Breiðholti er mest kvartað undan því að vögnum hafi verið fækkað og þeir aki ekki eins mikið inni í hverfin nú og meðan fyrra kerfi var við lýði. Þórhildur segir að þeir sem hafi hringt og verið í vandræðum með að komast leiðar sinnar hafi fengið leiðbeiningar. Hinum, sem hafi hringt inn með beinar kvartanir hafi verið vísað á skiptiborð Strætó bs. Hún segir greinilegt að þörf hafi verið á að kynna fólki betur breytingu á tíðni ferða á stofnleiðum á álagstímum, en nú er ekið á tuttugu mínútna fresti í stað tíu mínútna, eins og boðað hafði verið í leiðabók. Ásgeir Eiríksson, framkvæmdastjóri Strætó bs., kveðst ekki hafa nákvæma tölu yfir erindi sem borist hafi vegna breytinga á leiðakerfi strætisvagnanna. Hann giski á að þau séu á bilinu 150 - 250. Um það bil helmingur sé kvartanir, en einnig fyrirspurnir og svo ánægjuyfirlýsingar með nýja kerfið. Fólk hafi oftast samband í gegnum tölvupóst, en einnig sé talsvert hringt. "Þessi erindi verða tekin saman og unnið úr þeim," segir Ásgeir. "Stjórn fyrirtækisins verður svo upplýst um innihald þeirra. Í ljósi þess hve um mikla grundvallarbreytingu er að ræða kemur þessi fjöldi erinda ekki stórkostlega á óvart." Varðandi óánægju íbúa í Árbæ segir Ásgeir að þar sé nú boðið upp á hraðleið niður í bæ. Ekki sé víst að fólk hafi almennt kynnt sér möguleika nýja kerfisins. Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi er formaður hverfisráðs Árbæjar. Hann kvaðst ekki hafa fengið kvartanir vegna breytinga á leiðakerfinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×