Innlent

Óskar þess innilega að tekjur ríkissjóðs minnki

Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar; "Ég vona sem sagt að gengið láti undan og kaupmátturinn rýrni og þar með að tekjur ríkissjóðs minnki."
Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar; "Ég vona sem sagt að gengið láti undan og kaupmátturinn rýrni og þar með að tekjur ríkissjóðs minnki."

Einar Oddur Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar segist vona að úr einkaneyslu landsmanna dragi á næsta ári og tekjur ríkissjóðs minnki af þeim sökum.

"Ég vona það innilega vegna þess að skuldasöfnun einstaklinga á þessu ári er skelfileg og hefnir sín grimmilega," segir Einar Oddur.

Samkvæmt áliti meirihluta fjárlaganefndar verður afgangur ríkissjóðs um 19 milljarðar króna á næsta ári. Í annarri umræðu um fjárlagafrumvarpið á Alþingi í gær kom fram í máli Einars Odds að hann teldi líklegt að þessi afgangur yrði í raun mun minni.

"Ég vona að þetta verði svo. Ég vona að gengið láti undan. Ég vona að það dragi úr kaupum á erlendum varningi og einkaneyslan minnki. Það verður að gerast á næsta ári vegna þess að ég tel að framleiðsluatvinnuvegirnir hafi ekki meira þanþol. Ég vona sem sagt að gengið láti undan og kaupmátturinn rýrni og þar með að tekjur ríkissjóðs minnki."

Einar Oddur telur að ríkissjóður hafi vel efni á því að sjá af umtalsverðum tekjum.

"Þetta eru óeðlilegar tekjur sem ríkissjóður hefur í dag sem við sjáum í þessum mikla viðskiptahalla. Það er því óeðlilegt að ríkissjóður sé að hafa svona miklar tekjur og ég vona að þær hverfi því við höfum ekkert með þær að gera."

Einar Oddur sagði það viðvarandi veikleika Íslendinga að láta undan launakröfum og kallaði það lausung í efnahagslífinu. Einar Oddur gagnrýndi sérstakar heimildir stjórnvalda til fjárútláta og nefndi sérstaklega heimild ríkisins til að fjármagna tónleikahöll í Reykjavík.

"Þátttaka ríkisins á að vera að minnsta kosti 6 milljarðar króna. Ef ríkið á að taka þátt í kostnaði við að reisa þessa tónlistarhöll þá verður að leggja það fyrir þingið. Ég hef ástæðu til að ætla að menn séu að átta sig á að svona lausung gengur ekki. Það þarf að láta reyna á það hvort þingið sé sammála svona útgjöldum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×