Innlent

Spurt um þjónustu Símans

Engar kvaðir settar á Símann segir ráðherra neytendamála.
Engar kvaðir settar á Símann segir ráðherra neytendamála.

Jón Bjarnason, þingmaður vinstri grænna, spurði viðskiptaráðherra á Alþingi í gær, hvort til álita kæmi að setja þjónustukvaðir á fyrirtæki með almannaskyldur eða ráðandi markaðshlutdeild þar sem til dæmis yrði kveðið á um hámarksbiðtíma eftir svörun í þjónustusíma.

"Hvatinn að þessari fyrirspurn er persónulegs eðlis. Ég þurfti nauðsynlega að ná í þjónustusíma Símans 800 7000 og eftir að hafa beðið á línunni í einar 15 mínútur kom svarið að ég væri númer 30 á biðlista."

Jón sagði að nákvæmlega sama sagan hefði endurtekið sig síðar sama dag. Spyrja mætti ráðherra neytendamála hvort þetta væru eðlilegir viðskiptahættir.

Valgerður Sverrisdóttir, ráðherra neytendamála, sagði að hið einfalda og stutta svar væri nei. "Hvorki hafa verið settar né kemur til álita að setja slíkar kvaðir á þjónustuaðila með almannaskyldur eða ráðandi markaðshlutdeild þar sem kveðið yrði á um hámarksbiðtíma."

Valgerður taldi að neytendur hlytu að beina viðskiptum sínum annað fengju þeir ekki fullnægjandi þjónustu. "Markaðurinn sér um þetta sjálfur." Valgerður bætti við að í samkeppnisrétti væri ekki bannað að vera markaðsráðandi en ekki mætti misnota þá aðstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×