Innlent

Smábátasjómenn án samninga

"Það eru dæmi um útgerðir sem gera út sex til átta smábáta. Mér er sagt að Samherji sé kominn með tvo smábáta. Þetta er orðinn útvegur," segir Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands. Hann telur það afar áríðandi að gerðir séu kjarasamningar við áhafnir á smábátum.

"Þessir menn unnu alltaf fyrir sjálfa sig og þurftu því ekki að semja við einn eða neinn," segir Sævar og bendir á að nú sé landslagið allt annað því útgerðir reki bátana. "Þetta snýst um réttindi launamanns til þess að hafa kjarasamning," segir Sævar.

Hann segist hafa í tvígang sent Landssambandi smábátaeigenda bréf og óskað eftir viðræðum um kjarasamninga af þessu tagi en aldrei fengið svar.

"Sævar veit vel að við höfum ekki haft umboð aðalfundar til þess að gera samninga. Ég þarf ekkert að skrifa honum það í bréfi," segir Arthúr Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda. Hann segir það vitaskuld rétt að aðstæður smábátasjómanna séu að breytast. "Ég vék að því í minni opnunarræðu á aðalfundi Landssambandsins fyrir skemmstu að á þessu yrði tekið af fullum þunga. Það er rétt að taka það fram að réttindi þessara manna eru ekkert í frostmarki. Öll grundvallarréttindin eru vernduð í sjómannalögunum," segir Arthúr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×