Innlent

Helmingur starfsmanna verði konur

Álverið í Reyðarfirði er hannað með það í huga að það henti konum sem vinnustaður. Alcoa-Fjarðaál hefur sett sér það markmið að helmingur starfsmanna verði konur, en einnig að frá upphafi verði starfsmenn á öllum aldri. Áformað er að álverið taki til starfa eftir tæp tvö ár en verið er að steypa undirstöður þessa dagana. Í lok þessa árs verður byrjað að auglýsa störf í álverinu að ráði en gert er ráð fyrir að í lok árs 2007 verði um 400 manns komnir þar til starfa. Athygli vekur að Alcoa-Fjarðaál hefur sett sér það markmið að vera með jafnt kynjahlutfall í álverinu, það er álíka margar konur og karlmenn. Hrönn Pétursdóttir, starfsmanna- og kynningarstjóri Alcoa, segir að nútímaálver séu þannig að konur og karlar geti jöfnum höndum gengið í öll störf. Það sama eigi við fólk á öllum aldri, en vonast sé til að ná góðri aldursdreifingu. Það eru því ekki aðeins konur sem hvattar eru til að sækja um störf heldur einnig fólk á öllum aldri. Hrönn segir að álverið verði hannað með það í huga að ná þessum markmiðum. Hún voni að konur komi til með að vinna í álverinu. En er það raunhæft markmið? Hrönn segir svo ekki vera í upphafi vegna þess að þörf sé að mörgum iðnaðarmönnum fyrst, en fáar konur séu með þann bakgrunn. Hún voni að sem fyrst muni markmiðin nást. Það sé gengið mjög langt til þess að þetta geti gengið. Aðspurð hvað hún vilji segja við konur sem geti ekki hugsað sér að vinna í álveri segir Hrönn að hún myndi spyrja af hverju þær vilji það ekki. Hún hvetji konur til að koma og kynna sér málin vegna þess að álverið verði ekki síðri vinnustaður fyrir konur en karla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×