Innlent

Tjalda í lónstæði Hálslóns

Hópur mótmælenda er nú á leið upp á Kárahnjúka og stefnir að því að slá upp tjöldum í lónstæði fyrirhugaðs Hálslóns í kvöld. Þar var í dag slydda og eins stigs hiti. Landsvirkjunarmenn segja tjaldbúðirnar sér að meinalausu svo fremi sem fólkið fari ekki inn á vinnusvæðið. Hluti hópsins lagði af stað akandi úr Reykjavík upp úr hádegi, þeirra á meðal Arna Ösp Magnúsardóttir og sagði hún að byrjað yrði á því að slá upp tjöldum í kvöld. Hún kvaðst ekki vita hve margir yrðu í hópnum. Þá sagði hún að eftir væri að finna tjaldstæði en tjaldað yrði á landi sem ætti að sökkva. Sigurður Arnalds, talsmaður Kárahnjúkavirkjunar, segir að ef mótmælendurnir komi sér fyrir í lónstæðinu fyrir innan vinnusvæðið og námurnar við Kárahnjúka sé það Landsvirkjun að meinalausu. Þá sé aðeins spurning um það hvort þeir virði umhverfislög í landinu. Landsvirkjunarmenn eru þó ekki áhyggjulausir og hafa verið í sambandi við lögreglu vegna fyrirhugaðra mótmælabúða. En óttast menn að spjöll verði unninn í ljósi þess að hér eru á ferð sömu aðilar og stóðu fyrir því að sletta grænu skyri á gesti álráðstefnu í Reykjavík í síðustu viku? Sigurður segir ómögulegt fyrir Landsvirkjunarmenn að meta það en það megi orðað það svo að það hafi ekki verið góðs viti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×