Innlent

Óvíst um heimför flugdólganna

Óvíst er hvernig sex flugfarþegar, sem létu dólgslega í vél Iceland Express á laugardag, munu komast aftur heim til Íslands. Almar Örn Hilmarsson, framkvæmdarstjóri Iceland Express, átti fund með áhöfn flugvélarinnar í morgun og segir hann flugdólgana hafa verið með hótanir í garð starfsfólks flugfélagsins, auk hrópa og kalla sem hafi haft áhrif á aðrar flugfarþega. Mest beindust ólætin gegn yfirflugfreyjunni en hún hafði yfirumsjón með því hvernig tekið skyldi á málinu. Sexmenningarnir eru svokallað ógæfufólk og hafði verið hætt að veita þeim áfengi vegna ölvunar og láta. Almar Örn segir Iceland Express ekki taka við sexmenningunum aftur í sínar vélar en hluti hópsins eiga bókað far með flugfélaginu í lok mánaðarins. Almar segist hafa tekið frumkvæðið og látið Flugleiðir vita hvert fólkið væri og vill hann eiga fund með Flugleiðum og starfsmönnum Leifsstöðvar um hvernig megi reyna að koma í veg fyrir uppákomur sem þessar. Þrír flugdólganna voru handteknir við komuna í Kaupmannahöfn, tveimur var sleppt að loknum yfirheyrslum og þeim þriðja var haldið í nokkra klukkutíma. Danska lögreglan mun senda íslenskum lögregluyfirvöldum málið til rannsóknar þar sem ólætin hófust í íslenskri lofthelgi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×