Innlent

Taka árás með stillingu

"Það er sérkennilegt að vera hér," segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sem stödd er í London. "Það er mikil þögn yfir borginni og nánast engir bílar á ferli." Hún segir merkilegt hvað fólk virðist hafa tekið sprengjuárásunum í London með miklu jafnaðargeði. "Ég get ekki merkt það að mikill ótti í fólki, en Bretar eru vanir að takast á við margvíslegar uppákomur. Frá því þegar sprengingarnar urðu í Madríd fyrir rúmu ári síðan, hafa Bretar gert sér grein fyrir að slíkt kynni að gerast hér líka. Það var mikil umræða um möguleg hryðjuverk hér í London á þeim tíma. Bretar taka þessu með miklu jafnaðargeði, þó þeir geri sér grein fyrir því hversu alvarlegt þetta er. Það sýnir að þeir láta árásina ekki stjórna lífi sínu, en til þess er leikurinn gerður." Ingibjörg segist hafa farið niður í City um fjögurleytið í gær til að litast um, en þar hafi bankar og fyrirtæki verið lokaðir, bæði af öryggisástæðum og vegna þess að það tæki fólk margar klukkustundir til að komast heim. "Ég gekk yfir Millennium-brúna, sem venjulega er full af ferðamönnum, en þá voru þar bara jakkafatafólk úr fjármálahverfinu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×