Erlent

Flóð á meginlandi Evrópu í rénun

Flóðin í Mið- og Austur-Evrópu virðast loks í rénun. Að minnsta kosti fjörutíu og tveir hafa farist í hamförunum og eignatjón er gríðarlegt. Ástandið í Rúmeníu er einna verst og þar eru fórnarlömbin flest, 31. Þar er hreinsunarstarf nú að hefjast og sömuleiðis aðgerðir til að aðstoða þá sem misst hafa heimili sín, en flóðið eyðilagði 1400 hús. Þá hafa þúsundir manna þurft að yfirgefa heimili sín í Sviss, Austurríki og Þýskalandi þar sem mikið hvassviðri hefur fylgt úrkomunni. Í Þýskalandi eru íbúarnir farnir að snúa aftur og hreinsa til, moka burt aur og þurrka upp vatn. Talið er að vatnsmagnið í Dóná hafi náð hámarki síðdegis í dag. Fritz Mattes, bæjarstjóri í Kelheim í Þýskalandi, sagðist í dag vona að vatnið í ánni færi ekki yfir methæðina sem væri 7,47 metrar þannig endurmeta þurfi hæðarmörkin. Best væri að flóðið rénaði. Í Sviss hefur fólki ekki verið leyft að snúa heim þar sem enn er búist við rigningu í vikunni og ástandið er ótryggt. Í vesturhluta Austurríkis sögðu yfirvöld að það versta væri yfirstaðið og þar tínist fólk nú heim til sín smátt og smátt, þeir sem það geta. Yfirvöld í öllum löndunum þar sem flóðin hafa valdið eyðileggingu, en Pólland, Búlgaría og Moldavía eru einnig þar á meðal, hafa lofað því að aðstoða þá sem hafa orðið illa úti. Það er þó ljóst að ríkisstjórnir þessara landa hafa mismikið fé handbært í ríkiskassanum til að bregðast við svona hamförum, en samtals nemur tjónið líklega milljörðum króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×