Erlent

Stjórnarskrá hafi verið samþykkt

Búið er að leggja lokahönd á stjórnarskrá Íraks og verður hún samþykkt síðar í dag. Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir Laith Kubba, talsmanni ríkisstjórnar Íraks. Upphaflega átti stjórnarskráin að liggja fyrir á mánudaginn í síðustu viku en þar sem ekki hafði náðst samkomulag meðal ólíkra þjóðarbrota í landinu um hana fékk samninganefnd vikufrest til þess að ljúka málinu. Sjítum og Kúrdum tókst að ná samkomulagi en þar sem súnnítar voru enn andvígir stjórnarskránni og höfðu hótað að fara með málið fyrir dómstóla gaf þingið nefndinni þriggja daga frest til viðbótar, eða fram til kvöldsins í kvöld, til að ná víðtækari sáttum. Talsmaður ríkisstjórnarinnar sagði við Reuters-fréttastofuna að þing þyrfti ekki að koma saman til þess að greiða atkvæði um stjórnarskrána þar sem slíkt hefði verið gert á mánudag. Reuters hefur hins vegar eftir fulltrúa súnníta í stjórnarskrárnefndinni að engin sátt sé um stjórnarskrána, en súnnítar hafa verið andvígir því að gert sé ráð fyrir því í skránni að Írak verði sambandsríki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×