Innlent

Lyfsalar sinna ekki upplýsingaskyldu

Verðlagseftirlit ASÍ segir óviðunandi að samningar um lyfjakostnað skili sér ekki betur í lægra lyfjaverði til neytenda..
Verðlagseftirlit ASÍ segir óviðunandi að samningar um lyfjakostnað skili sér ekki betur í lægra lyfjaverði til neytenda..

Örfáir lyfsalar virðast upplýsa viðskiptavini sína um ódýrari samheitalyf sem geta lækkað lyfjakostnað þeirra, að því er fram kemur í könnun sem verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands hefur gert á þróun lyfjaverðs.

Eftirlitið bendir á að samkvæmt gildandi reglugerð sé lyfsölum skylt að upplýsa neytendur um val á milli samsvarandi samheitalyfja sé verðmunur þeirra meiri en fimm prósent.

Jafnframt þessu eru niðurstöður verðlagseftirlitsins þær, að lækkun á lyfjaverði skili sér engan veginn nægilega vel til neytenda. Samkvæmt samningum sem heilbrigðisyfirvöld gerðu í fyrra og í ár við lyfjaheildsala og smásala á lyfjaverð að lækka í áföngum fram í september 2006.

Þá á það að verða sambærilegt við það sem er á hinum Norðurlöndunum. Samkvæmt könnun verðlagseftirlitsins á tveimur lyfjategundum lækkaði önnur þeirra, bólgueyðandi lyfið Voltaren Rapid, um ríflega sjö prósent en meðalafsláttur apótekanna af hluta sjúklings minnkaði jafnframt úr 7,5 prósentum í 6 prósent.

Hin tegundin, mígrenilyfið Imigran, hækkaði aftur á móti um tæp fimm prósent.

Þessar verðbreytingar urðu á tímabilinu 20. apríl til 1. nóvember. Verðlagseftirlitið segir "óásættanlegt að þeir samningar sem gerðir hafi verið á lyfjakostnaði skili sér ekki betur í lægra lyfjaverði til neytenda".

Hvetur það neytendur til að spyrjast fyrir hjá læknum og lyfsölum um hvort til séu ódýrari samheitalyf og lækka þar með lyfjakostnað sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×