Lífið

Mikil hlýja í loftinu á konudag

Konudagurinn var í gær og að venju flykktust karlmenn til blómabænda og keyptu glaðning handa elskunni. Sú hefð að gleðja konuna með einhverjum hætti á konudaginn er mun eldri en hefðin að gefa blóm. "Blómahefðin byrjaði ekki fyrr en um 1950 en þá var úrvalið í blómabúðunum með allt öðru móti en nú er," segir Binni í Blómaverkstæði Binna á Skólavörðustíg en hann hefur verslað með blóm í 45 ár eða síðan hann byrjaði 15 ára gamall að læra blómaskreytingar. "Á þessum tíma voru túlípanar og íris einu blómin sem fengust í kringum konudaginn þannig að þetta hefur aldeilis breyst síðan þá. Núna eru rauðu rósirnar langvinsælastar þó svo að margir menn séu mjög frjálslyndir og til í að blanda saman ólíklegustu litum." Að mati Binna er það skemmtilegasta við konudaginn að hér er á ferðinni alíslensk hefð ólíkt Valentínusardeginum sem var haldinn hátíðlegur á dögunum. "Á þessum degi er gaman að vera blómakaupmaður. Við opnum klukkan sex í staðinn fyrir níu og menn byrja strax að flykkjast inn. Þá eru þeir búnir að koma við í bakaríinu og ætla að koma konunni á óvart þegar hún vaknar. Það er mikil hlýja í loftinu og þetta er skemmtilegur dagur í blómabúð."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.