Lífið

Er allt vænt sem vel er grænt?

Þeim fjölgar stöðugt sem sneiða hjá kjöti og fiski og neyta þess í stað einungis grænmetis og jurtafæðis. Þeir sem hafa tileinkað sér svonefnt vegan-mataræði ganga skrefinu lengra því þeir sniðganga allan mat sem inniheldur snefil af dýraafurðum, bæði af siðferðisástæðum og vegna þess að þeir telja að slíkur matur sé einfaldlega miklu hollari en sá hefðbundni. Mjólkurafurðir og egg eru á meðal þess sem vegan-fólk neitar sér um svo og matvæli sem innihalda aukaefni sem eru komin úr dýraríkinu. Ýmsar súkkulaðitegundir innihalda lesitín sem er unnið úr mjólk og í sojaostum sem seldir eru hérlendis er mjólkurduft. Kjötið létti lundina Deildar meiningar eru hins vegar um hvort rétt sé að setja ung börn á vegan-mataræði. Í nýlegri bandarískri rannsókn er því haldið fram að slík fæða sé þeim beinlínis skaðleg þar sem ýmis næringarefni sem börnum eru nauðsynleg eru ekki fyrir hendi í vegan-mat. Forvígismaður rannsóknarinnar heldur því fram að börn mæðra sem sneiða alfarið hjá mat úr dýraríkinu séu smávaxnari og meira seinþroska en börn sem fá kjöt og mjólk reglulega. "Það er því siðferðislegur ábyrgðarhluti að setja ung börn á strangan vegan-kúr." 544 afrísk börn tóku þátt í rannsókninni og höfðu þau öll alist upp á korn- og baunamat sem er snauður af bætiefnum á borð við járn, sink og B12-vítamíni. Um tveggja ára skeið var sumum þessara barna gefið dálítið kjöt daglega, önnur fengu mjólkurglas á dag og hjá enn öðrum var mataræðið óbreytt. Þau börn sem fengu kjöt og mjólk tóku að dafna betur og sýna meiri framfarir í skóla en hin börnin. Auk þess voru þau léttari í lund og fjörugri. Vísindamennirnir undirstrikuðu að þótt rannsóknin hefði verið gerð í fátæku samfélagi í Afríku hefði hún beina þýðingu fyrir Vesturlandabúa. Talsmenn vegan-hreyfingarinnar vísa þessum niðurstöðum hins vegar á bug og benda á aðrar rannsóknir sem sýna að börn þeirra séu yfirleitt hraustari en jafnaldrar þeirra sem neyta kjöts. Grænmetisbörnin pattaraleg Margir Íslendingar eru grænmetisætur en vegan-lífsstíll er enn sem komið er ekki mjög algengur. Gyða Hrund Þorvaldsdóttir hefur um nokkurt skeið eingöngu borðað vegan-mat og kveðst aldrei hafa verið hressari. "Ég finn mikinn mun á mér, hef ekki orðið veik eftir að ég sleppti mjólkurafurðum og eggjum, ég er búin að standa af mér allar flensur sem hafa gengið," segir Gyða og bætir því við að mígreni sem áður hrjáði hana sé nánast á bak og burt. Því þarf ekki að koma á óvart að Gyða dregur niðurstöður bandarísku rannsóknarinnar í efa enda segir hún öll nauðsynleg næringarefni fyrirfinnast í vegan-mataræðinu. "Soyabaunin er próteinríkasta afurð í heiminum, tófú er mjög kalk- og steinefnaríkt og omega-3 fitusýran sem allir segja að sé svo mikilvæg úr blessuðum fisknum færðu úr hör- og sólblómafræjum. Grænkál og spínat gefur okkur járn og soyamjólk er oftast kalkbætt." Innan Samtaka grænmetisætna er starfræktur sérstakur mæðrahópur og segir Gyða að börn þessara kvenna séu einhver þau pattaralegustu sem hún hefur á ævi sinni séð, jafnvel yfir kjörþyngd ef eitthvað er. Rannsóknir sýna að konur sem eru á vegan-fæði er síður hætt við brjóstakrabbameini og auk þess er mjólk sem þær framleiða án ýmissa eiturefna sem stundum finnast í brjóstamjólk kvenna sem neyta hefðbundins matar. Offita er nánast óþekkt á meðal grænmetisætna og þeim er jafnframt síður hætt við hjarta- og æðasjúkdómum. Eina vandamálið sem grænmetisætur segjast glíma við hérlendis er fátæklegt úrval af mat sem þeim hentar. Til að bæta gráu ofan á svart eru sojavörur og annar varningur sem tilheyrir vegan-eldhúsinu settur í efra þrep virðisaukaskattsins. Stjórnvöld líta því á hollustuna sem munaðarvöru.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.