Sport

Owen fær að heyra það

Enski landsliðsframherjinn Michael Owen fékk heldur betur að heyra það frá Carlos Alberto, landsliðsþjálfara Asera, eftir 2-0 sigur Englendinga í landsleik þjóðanna í gær. Mikið hafði verið rætt um stórtap Asera fyrir Pólverjum á dögunum og fyrir landsleik þeirra við Englendinga í gær, voru fréttamenn að leiða líkum að markasúpu hjá Enska liðinu.  Þar barst í tal afrek Malcom McDonald fyrir enska liðið fyrir mörgum árum, þegar hann skoraði fimm mörk í einum landsleik og einn fréttamanna nefndi Owen til sögunnar sem líklegan kandídat í að jafna afrekið. Ekki er enskukunnátta Alberto betri en svo, að hann mistúlkaði hógvær svör enska landsliðsmannsins og skildi þau þannig að hann hefði gefið út yfirlýsingar um að Englendingar myndu vinna leikinn að minnsta kosti 8-0 og að hann sjálfur myndi skora að minnsta kosti fimm mörk í leiknum.  Þjálfarinn lét því dæluna ganga eftir leikinn og tók einar 10 mínútur í að ausa skömmum og svívirðingum yfir Michael Owen. "Hver er hann að segja slíka hluti.  Hvað heldur þessi dvergur að hann sé? Hefur hann unnið eitthvað í fótbolta? Hann situr bara á varamannabekk Real Madrid og svo kemur hann hér og byrjar að þenja sig," sagði þjálfarinn æfur. Owen vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar hann heyrði af reiðilestri þjálfarans, en brást auðmjúkur við. "Ég veit ekki hvað ég sagði til að verðskulda þessar skammir, en það er alveg rétta að ég lék ekki vel í gær og verð að standa mig betur í næsta leik. Svona leikir þroska mann og gera mann betri", sagði landsliðsmaðurinn, sem kippti sér ekki frekar upp við árásina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×