Erlent

Kosningarnar gengu vel

Þingkosningarnar í Zimbabwe í dag gengu vel þrátt fyrir hrakspár. Fréttaskýrendur eru hins vegar á einu máli um að ekkert verði að marka úrslitin sökum víðtæks kosningasvindls.  Afríkuríkið Zimbabwe skaut upp kollinum í vestrænum fjölmiðlum fyrir nokkrum árum þegar forseti landsins, Robert Mugabe, ákvað að reka hvíta bændur af jörðum sínum og þagga harkalega niður í stjórnarandstöðunni. Í kjölfarið hafa landsmenn mátt þola hungursneyðir og hörmungar. Sólveig Ólafsdóttir, sem stödd er í Zimbabwe og var líka í landinu í síðustu kosningum, segir mjög ólíku saman að jafna. Þá hafi kosningabaráttan verið afar ósvífin og vegatálmar um alla borg en nú sé allt rólegt. Það sé eins og ríkisstjórnin sé miklu afslappaðri gagnvart stjórnarandstöðunni og fullviss um sigur. Ásakanir um kosningasvindl eru háværar, bæði að fólki sé mútað með matargjöfum sem og að mörg hundruð þúsund látnir einstaklingar hafi verið skráðir sem kjósendur. Mugabe blæs hins vegar á alla gagnrýnisraddir, sérstaklega erlendis frá. „Ég þarf ekki að samræma neitt gagnvart Vesturveldunum. Ég er forseti landsins. Við höfum okkar eigin reglur hérna og erum sjálfstæð. Þau eiga ekki að skipta sér af sjálfstæði okkar. Það er allt og sumt,“ segir Mugabe. Sólveig segir að þrátt fyrir að nú fari lítið fyrir stjórnarandstöðunni og Morgan Tsvangirai, leiðtoga hennar - sem skýrist af því að fjölmiðlum stjórnarandstöðunnar hefur verið lokað - þá njóti Tsvangirai mikils fylgis almennings. Og hún spáir því að soðið geti upp úr þegar úrslitin verða kunn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×