Erlent

Beið í þrjá sólarhringa í rústunum

Norskir rústabjörgunarmenn björguðu þrettán ára dreng úr húsarústum á Nias-eyju á Indónesíu í nótt, tæpum þremur sólarhringum eftir að stóri jarðskjálftinn reið þar yfir á mánudaginn. Drengurinn heitir Michael og var heill á húfi en afar þyrstur þegar Norðmennirnir náðu honum úr rústum fimm hæða byggingar í nótt. Fjölskylda hans er enn föst í rústunum og ekki er vitað hvort hún er lífs eða liðin. Fleirum var bjargað á lífi, meðal annars ungri konu sem hafði legið við hlið látinnar dóttur sinnar og systur síðan skjálftinn varð. Nokkrar alþjóðlegar rústabjörgunarsveitir eru á svæðinu, meðal annars frá Noregi, Ástralíu og Singapúr. Stærsta borg Nias er enn vatns- og rafmagnslaus og svo virðist sem ekki hafi tekist með öllu að dreifa matvælum til eftirlifenda þar sem íbúar kvarta sáran um hungur. Hjálparstofnanir virðast að auki helst beina augum sínum að Nias en fregnir berast nú af miklu tjóni og matarskorti á nálægum eyjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×