Innlent

Heimamenn og Vegagerð deila um nýja Ölfusárbrú

Ágreiningur er um byggingu nýrrar brúar yfir Ölfusá en tvær tillögur liggja fyrir í nýju aðalskipulagi Árborgar fyrir tímabilið 2005-2025. Frestur til að skila inn athugasemdum rennur út eftir viku.

Sveitarstjórnarmenn í Árborg og Hraungerðishreppi vilja byggja brú yfir miðja Efri-Laugardælaeyju, eins og gert er ráð fyrir í núgildandi aðalskipulagi, en Vegagerðin mælir með að brúin verði byggð nálægt ferjustað Laugardælaferju. Málamiðlunartillaga gerir ráð fyrir að vegurinn sveigist nær bænum þegar yfir brúna er komið.

Syðri leiðin er talin stuðla að betri innbyrðis tengslum og dreifingu umferðar til strandbyggðar og dreifbýlis. Sú staðsetning er einnig talin geta haft heftandi áhrif á þróun byggðarinnar og skorið byggðarkjarnana sundur. Í báðum tillögum skerðist golfvöllurinn, meira þó samkvæmt nyrðri leiðinni, en ef brúin og vegurinn færast fjær Selfossi fær bærinn meira byggingarland.

Gert er ráð fyrir að kostnaður við tvær brýr, yfir í Efri-Laugardælaeyju og þaðan aftur í land, verði 700-800 milljónir króna en kostnaður við hina tillöguna yrði 450-500 milljónir. Heildarmunurinn er því um 300 milljónir króna.

Sveitarstjórnarmenn styðja syðri leiðina og telja að sú leið kæmi betur út fyrir byggðina á Selfossi, umferðin yrði eðlilegri og það takmark næðist frekar að flytja þungaflutninga út fyrir bæinn.

Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri segir að Vegagerðin hafi mælt með nyrðri leiðinni þar sem undirstöður brúarinnar yrðu öruggari ef til jarðskjálfta kæmi en það hafi líka haft áhrif að sá kostur hafi verið talinn ódýrari. Guðmundur Kr. Jónsson, formaður skipulagsnefndar Árborgar, segist ekki eiga von á öðru en að brú yfir Efri-Laugardælaeyju yrði samþykkt. Hann telur að framkvæmdin komist á vegaáætlun eftir 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×