Innlent

Prestar vilja gifta samkynhneigða

"Við fögnum því að þjóðkirkjan sé að svara kalli tímans," segir Sigursteinn Másson varaformaður Samtakana 78 vegna þeirrar óskar sem biskupi Íslands barst í gær á prestastefnunni sem nú er haldin um að þjóðkirkjan komi að hjúskaparstofnun samkynhneigðra para með hliðstæðum hætti og hjá gagnkynhneigðum. Í ályktuninni sem Jón Helgi Þórarinsson prestur í Langholtskirkju lagði fram er þeim tilmælum beint til biskups að hann feli svokallaðri kenningarnefnd að bregðast við þessari ósk. Jón Helgi segir að nú verði nefndin að taka afstöðu til þess hvort koma eigi á fót formlegu ritúali þar sem pörin verða blessuð eða þá að skrefið verði stígið til fulls og farið verði að vígja samkynhneigð pör með löggjörningi. Sigursteinn sagði að þessi tillaga hefði alls ekki komið sér á óvart því um sjálfsögð jafnrétti væri að ræða. Hann sagðist hinsvegar ánægður með að skynja með þessum hætti þann stuðning sem þessi jafnréttisstefna hefur á meðal presta. Í dag mun svo kirkjan opna formlega vef á vefsvæði sínu þar sem fjallað er um þessi málefni samkynhneigðra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×