Innlent

Tilbúin langt á undan áætlun

Vaskir verktakakar við gerð jarðganga undir Almannaskarð, rétt austan við Höfn í Hornafirði, eru nú í óða önn að sópa og snurfusa göngin, sem formlega verða tekin í notkun í dag, langt á undan áætlun. Með vegskálum beggja vegna ganganna eru þau rúmlega 1100 metra löng og nýir vegkaflar beggja vegna eru samtals um fimm kílómetrar. Verkið er langt á undan áætlun en vinna við sjálf göngin hófst fyrir réttu ári. Varð meðal annars sett Íslandsmet við gerð sprengdra ganga þegar einn vinnuflokkur náði að sprengja 105 metra á einni viku. Eftir að göngin náðu í gegn hefur verið unnið að styrkingum á vatnsvörnum, frárennsli og lýsingu, en aðalverktakar við verkið voru Héraðsverk ehf. og norska fyrirtækið Leonhard Nilsen og synir. Kostnaður við göngin er rösklega milljarður króna sem er heldur minna en áætlað var í upphafi. Þótt göngin stytti hringveginn ekki umtalsvert eru þau mikil vegabót þar sem vegurinn um Almannaskarð var hættulegur og oft torfarinn að vetrarlagi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×