Lífið

Sekt eða sakleysi aukaatriði

Sekt og sakleysi virðast algjör aukaatriði við réttarhöldin yfir Michael Jackson, en verið er að velja kviðdóm til að fjalla um ásakanir um barnaníðingsskap á hendur honum. Ástandið fyrir utan dómhúsið í Santa Barbara sýslu, þar sem poppgoðið Michael Jackson svarar til saka fyrir níðingsskap gagnvart ungum dreng, er eins og í fjölleikahúsi. Blaða- og fréttamenn eru þar eins og mýflugur á mykjuskán, en talið er að yfir þúsund fréttamenn séu á staðnum enda þykir málið þess virði að eyða dágóðum tíma í daglega umfjöllun um það. Að mati þýska fréttamannsins Ulrichs Oppolds hefur málið allt sem góð frétt þurfi að hafa. Um sé að ræða hátt fall heimsfrægrar stjörnu, eins frægasta manns í heimi. Þarna spili inn í kynlíf og eiturlyf en ekki sérlega mikið af rokki. Í dag var reynt að skipa kviðdóm í málinu en það reyndist flókið mál og langdregið. Þeir sem fylgdust með segja frægðina flækjast fyrir í réttarsalnum þó að Jackson hafi látið lítið fyrir sér fara þar. Búist er við löngum réttarhöldum og Sheri Wilkins, einn aðdáenda Jacksons, ætlar sér að styðja stjörnuna hvern dag þeirra. Hún segir að hún hafi sagt upp starfi sínu sem leikskólakennari eftir þrettán ár í starfi og flutt til Santa Barbara vegna réttarhaldanna. Hún ætli að styðja hann hvern einasta dag og hún viti að hann sé saklaus og að hann hljóti uppreisn æru. Ekkert sé mikilvægara en að berjast fyrir réttlætinu. Sekt eða sakleysi virðast vekja minnsta athygli þegar málareksturinn er annars vegar og skoðanir oft myndaðar á grundvelli annars en þeirra staðreynda sem kynntar hafa verið. Í réttarsalnum í dag var líka fimmtán ára gamall piltur sem er að ná sér af krabbameini, en Jackson á að hafa beitt hann kynferðisofbeldi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.