Lífið

Lag SigurRósar eins og gjöf

Tónlistarvefurinn Pitchforkmedia.com hefur nú birt lista yfir hundrað bestu lög áranna 2000 - 2004. Tuttugu manns sem skrifa reglulega á vefinn völdu öll sinn lista sem voru svo settir saman í einn hundrað laga lista. SigurRós var í 44. sæti listans með lagið Svefn-G-Englar. Öll lögin á listanum fá smá umsögn og fær lag SigurRósar þá umsögn að þetta fyrsta SigurRósar lag sem fékk athygli erlendis sé ekki beinlínis eiturlyfjatónlist heldur sé tónlistin sjálf eiginlega eins konar lyf. "Hver einasta hlustun á lagið er tilraun til þess að fanga hrollinn sem fæst við fyrstu upplifun af falska tóninum í rödd Jón Þórs Birgissonar sem er of tær og himnesk fyrir þennan heim. Það var ekkert þessu líkt til fyrir," segir í umsögninni. Jónsa er svo líkt við fyrrum söngvara Smashing Pumpkins, Billy Corgan. "Hérna er lag sem þurfti að vera tíu mínútna langt. Þegar þú ert í stuði til þess að hlusta á það þá er það eins og gjöf. Og þó svo að þú finnir aldrei fyrstu upplifun af laginu aftur þá heldurðu áfram að reyna." Það vekur athygli að Björk á ekkert lag á endanlega listanum en hún á þó nóg af lögum á upphaflegum listum gagnrýnendanna. Hún kemur oftar fyrir á þeim en SigurRós. Ástæðan fyrir því að hún kemst hins vegar ekki inn á endanlega listann er að sú aðeins eru tilnefnd tvö lög SigurRósar á meðan heil fjögur lög frá Björk eru tilnefnd og þar af leiðandi kemst ekkert þeirra inn. Gagnrýnendurnir virðast greinilega ekki vera sammála um hvert besta lag Bjarkar frá þessum árum sé. Efst á listanum er lagið Hey Ya með Outkast og í kjölfar þess fylgja lög eins og Losing My Edge með LSD Soundsystem, Get Ur Freak On og Work It með Missy Elliott, Heartbeat með Annie, Maps með The Yeah Yeah Yeahs og House Of Jealous Lovers með The Rapture.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.