Erlent

Sagði dómurunum að fara til fjandans

Gríðarlegur viðbúnaður er vegna réttarhalda yfir Saddam Hussein, fyrrverandi forseta Íraks. Réttahöldin héldu áfram í dag en í gær strunsuðu lögfræðingar hans út úr réttarsalnum eftir að hafa verið meinað að tjá sig um réttmæti réttarhaldanna.

Réttarhöld gegn Saddam Hussein, fyrrum forseta Íraks, og sjö fyrrum undirmönnum hans var haldið áfram í dag eftir að hafa verið tvívegis verið slegið á frest. Í gær lýsti vitni því hvernig hermenn Saddams pyntuðu og myrtu 148 sjítamúslíma, menn, konur og börn, á miskunnarlausan hátt í þorpinu Dujail árið 1982.

Í réttarhöldunum í dag bar kona vitni á bak við tjald. Þá var skrúfað fyrir beina útsendingu af vitnisburði hennar til blaðamanna en gripið var til þessa ráðs til að koma í veg fyrir að hægt væri að þekkja konuna af rödd hennar. Mikill viðbúnaður er við réttarhöldin en tveir lögfræðingar tveggja sakborninga hafa verið myrtir frá því réttarhöldin hófust og í gær. Tíu manns munu bera vitni um fjöldamorðin í Dujail en búist er við að mörg þeirra kjósi að tjá sig á bak við skjá og breyta rödd sinni til að þekkjast ekki.

Saddam Hussein og fyrrum undirmenn hans neita allir sök í málinu. Þeir geta átt yfir höfði sér dauðadóm verði þeir fundnir sekir um fjöldamorðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×