Jacob Zuma, fyrrverandi varaforseti Suður-Afríku, hefur verið ákærður fyrir nauðgun. Zuma mætti fyrir rétt vegna málsins í dag en ekki var greint frá ákærunni fyrr en þá. Johannesburg Sunday Times greindi frá því í síðasta mánuði að fjölskylduvinur Zuma hafi lagt fram kæruna en varaforsetinn fyrrverandi segist saklaus.
Hann var látinn laus í dag gegn tryggingu en málflutningur hefst 13. febrúar á næsta ári. Zuma á einnig yfir höfði sér ákæru fyrir spillingu og það varð til þess að hann vék úr embætti varaforseta fyrr á árinu. Talið var líklegt að hann yrði eftirmaður Thabos Mbekis, forseta Suður-Afríku, þegar kosið yrði 2009 en útlit er fyrir að þær vonir séu nú orðnar að engu.