Innlent

Lögðu til átján ára drengs

"Ég held að honum líði bara eins og hægt er að búast við eftir þessa atburði," segir Guðrún Árný Arnardóttir, móðir Einars Ágústs Magnússonar, átján ára drengs sem varð fyrir fólskulegri líkamsárás í samkvæmi í húsi við Bæjargil í Garðabæ í fyrrinótt. "Það er sprunga í höfuðkúpunni og hann hefur verið í aðgerð. Það verður að bara að koma í ljós hvernig honum líður," segir Guðrún. Fjórir átján ára drengir voru handteknir síðar um morguninn grunaðir um aðild að árásinni. Einum þeirra hefur nú verið sleppt en krafist var gæsluvarðhalds yfir hinum þremur að sögn lögreglu. Lögreglan í Hafnarfirði segir unga manninn hafa komið sem gest í samkvæmi í húsi við Bæjargil. Þegar þangað var komið kom til átaka milli hans og árásarmannanna, en þeir voru fyrir í húsinu. Slagsmálin færðust út fyrir húsið þar sem lagt var til Einars Ágústs þannig að hann hlaut höfuðkúpubrot. Stór hnífur eða sveðja var notuð og hlaut Einar Ágúst slæma skurði á höfuð, handleggi og hendur. Skurðir á höndum eru í greipunum og eru taldir koma til þegar Einar reyndi að verjast árás með hnífnum. Annar ungur maður á svipuðu reki meiddist þegar hann reyndi að ganga á milli og stöðva slagsmálin. Meiðsl hans voru töluvert minni. Drengirnir voru fluttir á slysadeild af fólki sem þeir komu með í samkvæmið og var atvikið tilkynnt lögreglu frá slysadeild. Fjórmenningarnir sem voru handteknir hafa áður komið við sögu Hafnarfjarðarlögreglu. Fjöldi vitna var að atvikinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×