Innlent

Skuldahali fellur á ríkið

Ríkissjóður greiðir upp tugmilljóna skuld Tækniháskóla Íslands þegar hann sameinast Háskólanum í Reykjavík um næstu mánaðamót. Þetta bætist við samtals 225 milljóna króna framlag ríkisins til skólans síðustu þrjú ár sem ætlað hefur verið til að greiða niður skuldir hans. "Árið 2002, þegar Tækniskólanum var breytt í tækniháskóla var halli skólans hátt í þrjú hundruð milljónir króna. Tækniháskólinn fékk úthlutað 205 milljóna fjárheimild í fjáraukalögum árið 2002 til að greiða niður hluta skuldarinnar," segir Stefanía Katrín Karlsdóttir, fráfarandi rektor Tækniháskóla Íslands, um skuldahala Tækniskólans sem Tækniháskólinn tók á sig en var greiddur niður að mestum hluta af ríkinu. Auk þess fékk skólinn 19,7 milljónir 2004 til að greiða hluta biðlaunakostnaðar fyrrum starfsmanna Tækniskólans. Samkvæmt upplýsingum Stefaníu voru skuldbindingar Tækniskólans sem Tækniháskólinn tók yfir það miklar að uppsafnaður halli Tækniháskólans var 127 milljónir í árslok 2003 þrátt fyrir fjárheimildir frá ríkinu. Stefanía sagði þetta gamlar syndir sem Tækniháskólinn hefði fengið í vöggugjöf en hún vildi ekki tjá sig um ástæður halla Tækniskólans. "Verið er að leggja niður ríkisstofnun og því er gert ráð fyrir að ríkisjóður greiði útistandandi skuldir hennar. Það er eðlilegt að einkaaðili taki ekki yfir þær skuldir," segir Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneytinu, um niðurgreiðslu skulda skólans. Í umsögn með lagafrumvarpinu um afnám Tækniháskóla Íslands sem lagt var fyrir Alþingi 2. desember 2004 var áætlað að skuldir Tækniháskóla Íslands yrðu á bilinu 110 til 125 milljónir króna um mitt ár 2005 og að þessar skuldir færðust ekki yfir á hinn nýja skóla með sameiningunni. Stefanía segir þessar skuldir hafa lækkað um tugi milljóna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×